Frelsaðu kraftinn innra með þér!

Ferðin

Námskeið fyrir konur sem vilja verða sterkari og kynnast sjálfum sér betur


Frelsaðu kraftinn innra með þér er nýtt námskeið fyrir konur sem vilja fara í endurnærandi heilsuferð, læra að þekkja líkama sinn betur og uppgötva sinn innri styrk.

Námskeiðið fer fram í 7 daga ferð til Tossa de Mar á Spáni sem er friðsæll strandbær umvafinn stórkostlegri náttúru þar sem hægt er að njóta sólar og synda í tærum sjó. Þar gefst tækifæri til að hvílast, næra líkama og sál í fallegu umhverfi og kynnast öðrum frábærum konum.

Á námskeiðinu fer fram fagleg fræðsla frá læknum sem sérhæfa sig í kvenheilsu um hormónakerfi kvenna, taugakerfið, svefn, næringu, hreyfingu og andlega líðan. Fjallað verður sérstaklega um kynlöngun og kynheilbrigði út frá hormónakerfi líkamans.

Á námskeiðinu verður ítarleg fræðsla um taugakerfið, streitu og álag og hvernig hægt er að efla þrautseigju og góða heilsu með áhrifaríkum leiðum til streitustjórnunar með öndun, hugleiðslu og náttúrumeðferð.

Dagskrá - birt með fyrirvara um breytingar

15. september föstudagur - Komudagur
Flogið er með PLAY til Barcelona kl.15:00, lending í Barcelona 21:25.
Hægt er að bóka sæti í gegnum Visitor ferðaskrifstofu ef þið viljið tryggja sæti hjá ferðafélaga.
Við komuna til Barcelona finnið þið Bjargeyju fararstjóra með VISITOR skilti þar sem þið sækið töskurnar. Þegar allir hafa fengið sínar töskur förum við saman út í rútu sem keyrir okkur frá flugvellinum til Tossa de Mar en aksturinn tekur um eina og hálfa klst. 

Innritun á hótel Gran Reymar í Tossa de Mar. Kvöldhressing á hóteli.

16. september laugardagur
8:00-10:00 - Morgunverður
10:00-12:00 - Samvera á ströndinni

Bjargey, Eva Katrín og Hanna Lilja kynna fyrirkomulag ferðarinnar og námskeiðsins, hópurinn kynnist og við tökum léttar teygjur og æfingar til að losa um þreytu og spennu eftir ferðalagið.

Öndun, slökun og hugleiðsla.

Frjáls dagur eftir hádegi til að hvílast og skoða umhverfið.

20:00 - Sameiginlegur kvöldverður á Hótel Gran Reymar.

17. september sunnudagur
8:00-10:00 - Morgunverður

10:00 - 10:45 - Tengsl hugar og hjarta 
Bjargey með fræðslu um tengingu hugar og hjarta. Innsæið okkar, áttavitinn.
Hvað er náttúrumeðferð og hvernig getum við notað hana til að dýpka tengingu við okkur sjálfar og auka vellíðan og hamingju í okkar lífi.
Vinnustofan fer fram á ströndinni eða í Yoga garðinum á hótelinu.
15 mín hlé með léttri hressingu

11:00 - 13:00 - Hanna Lilja fræðsla um kvenheilsu
Hanna Lilja mun fræða hópinn um mismunandi lífsskeið kvenna, tíðahringinn og breytingaskeiðið og þau áhrif sem hormónasveiflur hafa á okkur bæði andlega og líkamlega og hvað við getum gert til að takast á við áskoranir þeim tengdum.

13:00 - Sameiginlegur hádegisverður á hótelinu eftir fræðsluna.

14:00 - Frjáls tími til að njóta sólar, strandar og alls þess sem Tossa de Mar býður upp á.

21:00 - 22:30
- Slökun fyrir taugakerfið 
Tónheilun, öndun og hugleiðsla.
Eva Katrín kennir öndunaræfingar og þær Bjargey leiða okkur í ferðalag með sjálfum okkur inn í djúpslökun áður en við leggjumst á koddann.

18. september mánudagur
Morgunverður 8:00-10:00
10:00-11:00 - Eva Katrín
Eva Katrín með fræðslu um taugakerfið, streitu, streituhormónin og muninn á streitu og álagi.
11:00-13:00 - Hugleiðsla og endurheimt á ströndinni. Náttúrmeðferð jörð - sól - vatn.
Bjargey leiðir okkur í hugleiðslu eftir öndunaræfingar með Evu Katrínu þar sem við notum orku náttúrunnar til að hlaða okkur.
Skemmtun, dans og gleði í sjónum að lokinni hugleiðslu.
Frjáls tími eftir hádegi til að slaka á og njóta.

Val um hádegis- eða kvöldverð á hótelinu.

19. september þriðjudagur
Frjáls dagur til að slaka á og njóta lífsins í sólinni.
Hægt að fara í nudd eða snyrtimeðferðir í heilsulind hótelsins (greitt aukalega).
Tilvalinn dagur fyrir þær sem vilja skoða fallegu strendurnar Cala Bona eða Cala Pola og synda og snorkla í tærum sjó. Hægt er að taka bátinn beint frá ströndinni yfir í næstu víkur en hann fer fram og til baka á klukkustundar fresti og kostar um 18 evrur að kaupa miða í bátinn.
Fallegar gönguleiðir eru allt í kring fyrir þær sem vilja ganga og njóta útsýnis til allra átta.

20. september miðvikudagur
08:00 -10:00 - Morgunverður
10:00-13:00
Eva Katrín með fræðslu um þrjár stoðir Wim Hof aðferðarinnar.
Öndunaræfingar, mismunandi kuldanálgun og stigvaxandi kuldaþjálfun, hugarfarsæfingar sem og vísindin að baki aðferðarinnar.

13:00 - Hádegisverður á hóteli

Frjáls tími frá 14:00-17:00

17:00-19:00
Hanna Lilja fræðsla um kynheilbrigði og kynlöngun út frá hormónakerfi líkamans.

21. september fimmtudagur
8:00-10:00 - Morgunverður
10:00 - 12:00/13:00 - Samvera, öndun, hugleiðsla og náttúrumeðferð á ströndinni.
Eva Katrín, Bjargey og Hanna Lilja
leiða skemmtilega samverustund þar sem við förum yfir hvað við höfum lært og upplifað á námskeiðinu. 

Hádegisverður á hóteli 13:00

19:30 - Sameiginlegur kvöldverður síðasta kvöldið okkar
Sameiginleg gönguferð að kastalanum í Tossa de Mar og kvöldverður í miðbænum á huggulegum veitingastað. Hver og ein greiðir fyrir sig í mat og drykk. Nánari upplýsingar þegar nær dregur.

22. september föstudagur
Heimferð
08:00-10:00 - Morgunverður
Útritun og skil á herbergjum 12:00 og hægt er að setja ferðatöskur í geymslu.
Okkur stendur til boða að nota sundlaugargarðinn á hótelinu um daginn og hægt er að fara í sturtu og nota búningsklefa og salerni á sömu hæð og sundlaugin er, þar eru einnig handklæði svo við getum látið fara vel um okkur á hótelinu þó við séum búnar að skila herbergjunum okkar kl.12:00. Sundlaugarbarinn er opinn en þar er hægt að kaupa drykki og smárétti.

Brottför frá hóteli 18:30 með rútu að flugvellinum í Barcelona. Mæting um 20:00 á flugvöll og flugið frá Barcelona OG615 er kl. 22:25 og lending í Keflavík áætluð 01.15 að íslenskum tíma.

Nánari upplýsingar:
Jógadýnur og hlý teppi eru á öllum herbergjum sem frjálst er að nota alla ferðina.
Mikilvægt er að taka með sér stórt handklæði eða þunnt teppi til að nota á ströndinni.
Mikilvægt að vera með sólarvörn og sólhatt/derhúfu meðferðis við verðum mikið úti í sólinni á ströndinni á námskeiðinu.

Innifalið í verði ferðarinnar er hálft fæði sem er morgunverður alla dagana, hádegisverður eða kvöldverður á hverjum degi. 

Við erum með sameiginlegan kvöldverð á hótelinu laugardaginn 16. September kl.20:00.

Hótelið tekur tillit til ofnæmis, vegan eða grænmetisfæðis og annarra óska svo þið þurfið ekkert að vera feimnar við að ræða ykkar óskir en gott er að láta vita tímanlega svo hótelið hafi tækifæri til að undirbúa.

Það er líkamsrækt á hótelinu sem stendur ykkur til boða ásamt litlu SPA en þar er hægt að bóka nudd og snyrtimeðferðir gegn gjaldi (ekki innifalið) verðskrá er að finna á hótelinu.

Matvöruverslanir eru í göngufæri svo þið getið keypt ykkur drykki og annað sem þið viljið hafa á hótelinu en það er minibar á herbergjunum svo þið getið sett í kæli. Fjöldi veitingastaða og kaffihúsa er allt í kring svo gott aðgengi er að góðum mat og drykk í göngufjarlægð.

Á flestum stöðum er hægt að greiða með greiðslukortum en gott er að hafa einhverjar evrur meðferðis ef það er einhver staður sem tekur ekki við kortum.

Hótelið er með handklæði sem hægt er að nota í sundlaugargarðinum, en við minnum ykkur á að taka handklæði eða þunnt teppi með ykkur í ferðina til að nota á ströndinni.

Innifalið í verði ferðar:
Flug með PLAY
Akstur til og frá flugvelli að hótelinu á Spáni
Íslensk fararstjórn
Gisting á Gran Reymar í 7 nætur
Hálft fæði, morgunverður ásamt hádegis- eða kvöldverði
Dagbókin Hamingjubók, verkefnamappa og penni
Námskeiðið Frelsaðu kraftinn innra með þér með leiðbeinendunum Bjargeyju, Evu Katrínu og Hönnu Lilju.

Lágmarksþátttaka er 15 manns - náist það ekki fellur ferðin niður.

Hótelið

Gran Hotel Reymar

Einn af vinsælustu kostunum á Tossa de Mar.
Þetta hótel við sjávarsíðuna er við Playa de la Mar Menuda-ströndinni. Hótelið er með útisundlaug, heitan pott, heilsulind, tennisvelli og býður upp á víðáttumikið útsýni yfir Tossa de Mar og kastalann.

Á heilsulind hótelsins má finna nuddpott, vatnsmeðferðir, tyrkneskt bað, gufubað og úrval meðferða og nuddmeðferða. Greiða þarf aukalega fyrir aðgang að heilsulindinni.

Herbergin á Gran Hotel Reymar eru með loftkælingu, svalir og sérbaðherbergi. Öll eru þau með flatskjá með gervihnattarásum, minibar og ókeypis WiFi. Öryggishólf er í boði gegn aukagjaldi. Gran Hotel Reymar býður einnig upp á 3 svefnherbergja villur með stofu, borðkrók, fullbúnu eldhúsi og verönd með sjávarútsýni.

Á hótelinu er rómantíski veitingastaðurinn Illa, sem býður upp á Miðjarðarhafs- og alþjóðalega à la carte rétti. Þaðan er frábært útsýni, bæði innan frá veitingastaðnum og á veröndinni. Panta þarf borð fyrirfram. Boðið er upp á morgunverðarhlaðborð og matreiðslusýningar.

Barirnir við ströndina og sundlaugarbakkann á Gran Hotel Reymar framreiða hressandi kokteila og auk þess býður hótelið upp á borðtennisborð og körfuboltavöll.

Tossa-kastalinn og Faro de Tossa-vitinn eru í 10 mínútna göngufæri ef gengið er meðfram aðalgöngusvæðinu við sjávarsíðuna, en þar er fjöldi verslana, bara og veitingahúsa.

Verð

Verð frá kr. 298.900 á mann miðað við 2 saman í herbergi

Greiðslumáti

Hægt er að tryggja sér sæti í ferðina
með því að greiða staðfestingargjald
kr. 40.000 per farþega í bókunarvélinni.

Við bjóðum raðgreiðslur, Netgiró og PEI.
Þá þarf að hringja í síma 578 9888
á milli 09-16 virka daga og ganga frá greiðslu.

Lokagreiðsla er innheimt 8 vikum fyrir brottför.

FLUGFÉLAG: PLAY


Flogið með PLAY.

INNIFALIÐ:
20 kg. innritaður farangur
Lítill handfarangur sem passar undir sæti.
Stærri handfarangurstösku þarf að greiða aukalega.
Séróskir um sætaval þarf einnig að greiða aukalega.

Fararstjórar

Bjargey Ingólfsdóttir, fararstjóri og fyrirlesari

Bjargey hefur um árabil farið með hópa af konum í endurnærandi heilsuferðir erlendis þar sem hún hefur kennt námskeiðið Leiðina að hjartanu sem er uppbyggjandi sjálfstyrkingarnámskeið fyrir konur. Bjargey er með B.A. próf í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands, er höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferðaraðili og fæðingardoula. Hún starfar sem fararstjóri, leiðbeinandi á námskeiðum hjá Mín besta heilsa og fyrirlesari. Bjargey gaf út dagbókina Hamingjubók sem hún notar á öllum námskeiðum, en með dagbókinni er hægt að halda heildrænt utan um sína heilsu, læra að tileinka sér meiri sjálfsumhyggju og skrifa hugleiðingar, markmið og drauma. Bjargey hefur mikla ástríðu fyrir því að valdefla konur, fræða um heilsu og kenna heildrænar aðferðir við að auka vellíðan og hamingju í sínu lífi. Bjargey notar náttúrumeðferð og sálvefræna losun í kennslu á námskeiðinu en hún mun leiða hugleiðslur á ströndinni ásamt því að vera með fræðslu í vinnustofum sem fara fram úti í náttúrunni. Hægt er að fylgjast með Bjargeyju á samfélagsmiðlum undir @bjargeyogco á Instagram.

Hanna Lilja Oddgeirsdóttir

Læknir og stofnandi GynaMEDICA. Hanna Lilja útskrifaðist sem læknir frá Háskólanum í Kaupmannahöfn 2013 og er að ljúka sérnámi í kvensjúkdóma-og fæðingalækningum. Í gegnum sérnámið jókst áhugi hennar á hormónakerfi kvenna, áhrif þess á heilsu kvenna til framtíðar og mikilvægi þess að skoða hvern einstakling heildrænt. Út frá þessu fór Hanna Lilja að skoða breytingaskeiðið betur og hvaða áhrif það getur haft á líf kvenna bæði í einkalífi og starfi sem og á heilsu almennt. Hanna Lilja stofnaði lækninga- og heilsumiðstöðina Gynamedica, sem er fyrsta heilsumiðstöðin á Íslandi sem sérhæfir sig í breytingaskeiði kvenna og vinnur nú þar. Hún hefur haldið fyrirlestra og fræðslu fyrir bæði heilbrigðisstarfsfólk og almenning vítt og breytt um landið. Hanna Lilja er meðlimur í Newson Health Menopause Society sem sérhæfir sig í að sameina heilbrigðisstarfsfólk um allan heim til að bæta meðferð kvenna á breytingaskeiði, auka fræðslu og þekkingu heilbrigðisstarfsfólks og stuðla að frekari rannsóknum á breytingaskeiði kvenna. Með viðeigandi fræðslu, ráðgjöf og meðferð má bæta lífsgæði kvenna á breytingaskeiði og eftir tíðahvörf til muna. Þetta tímabil sem allar konur ganga í gegnum hefur fengið of litla athygli í gegnum tíðina en líta má á þetta tímabil sem frábært tækifæri til að staldra við og endurskoða lífið og leggja grunninn að heilbrigðu lífi á efri árum, því heilsa okkar á miðjum aldri hefur stærst forspárgildi þess hvernig heilsa okkar verður í ellinni. Hægt er að fylgjast með Hönnu Lilju og hennar teymi á https://www.gynamedica.is/ og á samfélagsmiðlum undir @gynamedica.

Eva Katrín Sigurðardóttir

Læknir og viðurkenndur Wim Hof Method þjálfari Eva hefur í gegnum tíðina haft mikinn áhuga á heildrænni og einstaklingsmiðaðri nálgun í hennar starfi sem læknir, hvort sem það komi að líkamlegum eða andlegum kvillum. Eva er með BSc próf í viðskiptafræði og Cand.med í læknisfræði. Einnig er hún viðurkenndur Wim Hof Method þjálfari. Síðast en ekki síst titlar Eva sig sem “fyrrverandi ofurkonu” en eftir að hafa gengið í gegnum langt og áskorandi tímabil örmögnunar fór hún að sjá lífið í nýju ljósi og er hennar ástríða í dag að fræða fólk um taugakerfið, streitu og álag, muninn þar á milli og einfaldar leiðir til þess að auka jafnvægi og vellíðan í daglegu lífi. Andardrátturinn og meðvituð öndun er hennar aðal áhugamál og ástríða en hún nýtir hún sér sjálf og leiðbeinir öðrum með mismunandi öndunartækni og öndunaræfingar til þess að ná meira og betra jafnvægi, andlega og líkamlega. Eva leggur mikið upp úr fræðslu um grunnþarfir líkamans og hvernig má bæta þær til hins betra án þess þó að skapa of miklar kröfur. Áhugi Evu á kvenheilsu almennt kemur hér sterkur inn og hefur hún mikið skoðað áhrif og tengsl hormóna á grunnþarfir kvenlíkamans. Eva hefur haldið ótal námskeið, lengri og styttri, hérlendis og erlendis þar sem hún fræðir um og leiðbeinir fólki í áttina að betri líðan, m.a. með öndunaræfingum, stigvaxandi kuldaþjálfun sem og æfingum sem stuðla að breyttu og jákvæðu hugarfari. Fyrir ári síðan stofnaði Eva fyrirtækið “Respirare” en nafnið þýðir “Andaðu” á íslensku. Hún heldur úti vefsíðunum www.andadu.is og www.evasbreath.is þar sem má finna hina ýmsu fróðleiksmola ásamt upplýsingum um komandi námskeið og viðburði. Einnig er hægt að fylgjast með henni á samfélagsmiðlum undir @evasbreath.

Visitor

Hamraborg 20A

200 Kópavogur

Sölu og þjónustuver: 578 9888

Netfang: visitor@visitor.is

Hópferðir: hopar@visitor.is

Skráðu þig á póstlista visitor

© 2023, Visitor ferðaskrifstofa

/Skilmálar/Persónuverndarstefna